„Hugmyndin varð eiginlega til af einskærri nauðsyn. Ég er með fimm manna heimili, maðurinn minn er lögreglumaður og vinnur vaktavinnu og starfar einnig sem körfuboltadómari. Svo á ég tvo syni sem æfa fótbolta og fimleika og nú nýlega bættist þriðja barnið við. Mér fannst orðið alltof erfitt að fylgjast með hverjir voru hvar og hvenær og ákvað að gera dagatal til að hjálpa mér við skipulagið,“ útskýrir Kolbrún Ösp Guðrúnardóttir sem hannaði Fjölskyldudagatalið. Dagatalið er sérstakt fyrir þær sakir að sex reitir eru við hvern dag ársins sem þýðir að hægt er að færa inn stundaskrá allra fjölskyldumeðlima daglega.
Upphaflega ætlaði Kolbrún Ösp aðeins að gera eitt dagatal til að létta sjálfri sér lífið en þegar hún varð vör við áhuga fólks á dagatalinu ákvað hún að láta prenta fleiri. „
Ég var í fæðingarorlofi á þessum tíma og skráði mig í fjarnám í grafískri miðlun á meðan svo ég gæti hannað útlit dagatalsins sjálf. Svo lét ég Odda prenta þetta út fyrir mig og gorma.“ Þegar Kolbrún Ösp er innt eftir því hvort fjölskyldulífið gangi betur fyrir sig núna segir hún svo vera. „
Jú, fjölskyldulífið gengur mun betur. Það er minna um árekstra og við mætum öll á réttum tíma þangað sem við eigum að mæta,“ segir hún og hlær. Hægt er að nálgast Fjölskyldudagatalið í gegnum vefsíðuna
www.idagsinsonn.is auk þess sem hægt er að kaupa það í versluninni A4 og Pennanum Eymundsson.
Núna 10 árum seinna á þetta alveg jafn vel við, börnin hafa þó stækkað en eru ennþá á fullu í skólanum, íþróttum og tónlistarnámi, og dagatalið góða hjálpar okkur ennþá að halda utan um skipulag dagsins.
Kveðja, Kolbrún Ösp